Lukkunnar pamfílar 1. apríl 2006 01:58 Hvað er lán? Já, hvenær er lán lán? Þannig var spurt í Baugsmálinu og sýnist sitt hverjum. Og svo er auðvitað hin merkingin í orðinu lán, sem mér er hugleiknari, að vera lánsamur í lífinu, glópalán, barnalán og svo framvegis. Allt er þetta afstætt, ekki satt, alveg eins og flest annað, svart er ekki alltaf svart, eitt er að vera auðugur og annað er að vera auðugur, ef þið skiljið hvað ég meina. Það fer eftir því hvað maður telur vera auð. Maður getur verið auðugur að fé og maður getur verið auðugur að börnum, svo eitthvað sé nefnt. Listamaðurinn er auðugur að snilligáfu sinni en hefur kannske ekki mikla peninga milli handanna. Ég var í samkvæmi á dögunum, stóru og fjölmennu samkvæmi í heimahúsi, þar sem lítið var drukkið en því meira sungið og meðal gesta var fólk og einstaklingar sem hafa hlotið í vöggugjöf að geta sungið með sínu nefi, með sinni rödd, svo undir tók í húsinu og engum blöðum er um það að fletta að slíkur hæfileiki flokkast undir guðsgjöf, auð, sem aldrei verður í krónum metinn eða veginn. Þú ferð í íþróttasalinn og sérð þar börn og unglinga, sem skara fram úr í leikni, þú lest bók eftir rithöfund, sem með orðunum einum og textanum, opnar fyrir þér nýjar gáttir og nýja sýn. Og þú hittir gamlan félaga eða samferðamann, sem segir þér kostulega sögu og á örskotsstundu ertu farin(n) að brosa og hlæja og það birtir til í tilveru þinni. Já, það er mikil og dýrmæt náðargáfa að hafa húmor og eiginleikann að vera spaugsamur og fyndinn. Hláturinn lengir lífið, segir máltækið. Sannleikurinn er sá að hláturinn er uppspretta vellíðunar og lengir ekki aðeins lífið, heldur gerir það skemmtilegra, innihaldsríkara og auðugra. Ég var að hugsa um þetta um daginn, þegar ég horfði á auglýsingarnar í sjónvarpinu, sem gengu út á það að velgengnin væri undir því komin að eiga bíl, fyrsta bílinn, stærsta bílinn, besta bílinn. Þá er ekki annað skilja en velgengninni sé borgið. Hún mælist sem sagt í bílaeigninni! Og auðvitað er nokkuð til í því. Við tölum um að einhverjum gangi vel, ef hann kemst í álnir, berst á og efnast af vinnu sinni eða útsjónarsemi. Velgengni er sjálfsagt oftast mæld í veraldlegum efnum, efnahag og eignum. Enda oftast erfitt að láta gott af sér leiða, ef viðkomandi á ekki til hnífs og skeiðar og getur ekki um frjálst höfuð strokið. En ég hef hins vegar mætt fólki á minni lífsleið, sem lætur sér fátt um finnast hvort það á fínan bíl sem það getur stært sig af eða að það mæli velgengni sína og lífshamingju í stöðutáknum. Þvert á móti má fullyrða að stundum sé þessi hamingja og þessi velgengni í öfugu hlutfalli við ríkidæmið. Hvers virði er fíni bíllinn, ef heilsan bilar eða ógæfa dynur yfir eða innri gleði, kímni eða tilfinningar eru hvergi finnanlegar eða sjáanlegar? Sorgmæddur maður hlær ekki, þunglyndur maður spaugar ekki, menntunarsnauður maður skilur ekki. Skilur hvorki brosið né gleðina, sem endurspeglast í augum hins glaðværa manns og fær útrás í söng og leik og heilsusamlegu líferni. Ef ég þyrfti að velja milli bílsins og brossins, þá kýs ég það síðarnefnda. Ekki vegna þess að mig langi ekki í besta bílinn, heldur út af hinu að ég er fyrir löngu búinn að átta mig á því að velgengni mín er undir því komin að ég sé glaður og hraustur. Ég hugsa stundum um öll mistökin sem ég hef gert, axarsköftin, vitlausu ákvarðanirnar og ef ég hefði nú bara valið þessa leiðina en ekki hina, þá hefði þetta allt saman farið öðruvísi en það gerði. Framinn meiri, ríkidæmið stærra, metorðin önnur. En hvað er að fást um það, meðan maður vaknar glaður í bragði, sæmilega heill til sálar og líkama og skynjar ennþá fegurðina í náttúrunni, fólkinu, söngnum og hlátrinum? Að því leyti er ég lukkunnar pamfíll og get ekki kvartað yfir neinu. Ekki einu sinni út af bílnum. Velgengni mín, velgengni okkar allra er fólgin í okkur sjálfum. Ekki í prjálinu, ekki í metorðastiganum, ekki í stöðutáknum eða leikföngum fyrir fullorðna. Velgengnin er fólgin í lífsstílnum, í huganum og gleðinni yfir því að fá að vera til. Gleðin og heilsan er aldrei fullþökkuð almættinu. Þeir sem þess njóta eru heimsins mestu lukkunnar pamfílar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ellert B. Schram Skoðanir Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór Heimssýn úr músarholu – Gengur það? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Við þurfum Grím á þing Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Í dag kýs ég Sjálfstæðisflokkinn Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun
Hvað er lán? Já, hvenær er lán lán? Þannig var spurt í Baugsmálinu og sýnist sitt hverjum. Og svo er auðvitað hin merkingin í orðinu lán, sem mér er hugleiknari, að vera lánsamur í lífinu, glópalán, barnalán og svo framvegis. Allt er þetta afstætt, ekki satt, alveg eins og flest annað, svart er ekki alltaf svart, eitt er að vera auðugur og annað er að vera auðugur, ef þið skiljið hvað ég meina. Það fer eftir því hvað maður telur vera auð. Maður getur verið auðugur að fé og maður getur verið auðugur að börnum, svo eitthvað sé nefnt. Listamaðurinn er auðugur að snilligáfu sinni en hefur kannske ekki mikla peninga milli handanna. Ég var í samkvæmi á dögunum, stóru og fjölmennu samkvæmi í heimahúsi, þar sem lítið var drukkið en því meira sungið og meðal gesta var fólk og einstaklingar sem hafa hlotið í vöggugjöf að geta sungið með sínu nefi, með sinni rödd, svo undir tók í húsinu og engum blöðum er um það að fletta að slíkur hæfileiki flokkast undir guðsgjöf, auð, sem aldrei verður í krónum metinn eða veginn. Þú ferð í íþróttasalinn og sérð þar börn og unglinga, sem skara fram úr í leikni, þú lest bók eftir rithöfund, sem með orðunum einum og textanum, opnar fyrir þér nýjar gáttir og nýja sýn. Og þú hittir gamlan félaga eða samferðamann, sem segir þér kostulega sögu og á örskotsstundu ertu farin(n) að brosa og hlæja og það birtir til í tilveru þinni. Já, það er mikil og dýrmæt náðargáfa að hafa húmor og eiginleikann að vera spaugsamur og fyndinn. Hláturinn lengir lífið, segir máltækið. Sannleikurinn er sá að hláturinn er uppspretta vellíðunar og lengir ekki aðeins lífið, heldur gerir það skemmtilegra, innihaldsríkara og auðugra. Ég var að hugsa um þetta um daginn, þegar ég horfði á auglýsingarnar í sjónvarpinu, sem gengu út á það að velgengnin væri undir því komin að eiga bíl, fyrsta bílinn, stærsta bílinn, besta bílinn. Þá er ekki annað skilja en velgengninni sé borgið. Hún mælist sem sagt í bílaeigninni! Og auðvitað er nokkuð til í því. Við tölum um að einhverjum gangi vel, ef hann kemst í álnir, berst á og efnast af vinnu sinni eða útsjónarsemi. Velgengni er sjálfsagt oftast mæld í veraldlegum efnum, efnahag og eignum. Enda oftast erfitt að láta gott af sér leiða, ef viðkomandi á ekki til hnífs og skeiðar og getur ekki um frjálst höfuð strokið. En ég hef hins vegar mætt fólki á minni lífsleið, sem lætur sér fátt um finnast hvort það á fínan bíl sem það getur stært sig af eða að það mæli velgengni sína og lífshamingju í stöðutáknum. Þvert á móti má fullyrða að stundum sé þessi hamingja og þessi velgengni í öfugu hlutfalli við ríkidæmið. Hvers virði er fíni bíllinn, ef heilsan bilar eða ógæfa dynur yfir eða innri gleði, kímni eða tilfinningar eru hvergi finnanlegar eða sjáanlegar? Sorgmæddur maður hlær ekki, þunglyndur maður spaugar ekki, menntunarsnauður maður skilur ekki. Skilur hvorki brosið né gleðina, sem endurspeglast í augum hins glaðværa manns og fær útrás í söng og leik og heilsusamlegu líferni. Ef ég þyrfti að velja milli bílsins og brossins, þá kýs ég það síðarnefnda. Ekki vegna þess að mig langi ekki í besta bílinn, heldur út af hinu að ég er fyrir löngu búinn að átta mig á því að velgengni mín er undir því komin að ég sé glaður og hraustur. Ég hugsa stundum um öll mistökin sem ég hef gert, axarsköftin, vitlausu ákvarðanirnar og ef ég hefði nú bara valið þessa leiðina en ekki hina, þá hefði þetta allt saman farið öðruvísi en það gerði. Framinn meiri, ríkidæmið stærra, metorðin önnur. En hvað er að fást um það, meðan maður vaknar glaður í bragði, sæmilega heill til sálar og líkama og skynjar ennþá fegurðina í náttúrunni, fólkinu, söngnum og hlátrinum? Að því leyti er ég lukkunnar pamfíll og get ekki kvartað yfir neinu. Ekki einu sinni út af bílnum. Velgengni mín, velgengni okkar allra er fólgin í okkur sjálfum. Ekki í prjálinu, ekki í metorðastiganum, ekki í stöðutáknum eða leikföngum fyrir fullorðna. Velgengnin er fólgin í lífsstílnum, í huganum og gleðinni yfir því að fá að vera til. Gleðin og heilsan er aldrei fullþökkuð almættinu. Þeir sem þess njóta eru heimsins mestu lukkunnar pamfílar.