Skoðun

Innanlandsflugið til Keflavíkur

Góðan daginn Egill Mig langar að leggja nokkur orð í belg til stuðnings því að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Ég bý ekki í miðborg Reykjavíkur og hef aldrei gert. Ég horfi á þetta frá sjónarhóli ‘útlendings’ og ‘utanbæjarmanns’. Mér finnst liggja ljóst fyrir að við getum ekki rekið tvo meiriháttar flugvelli á Suðvesturhorninu. Sjálfsagt er að allt millilanda- og innanlandsflug á þessu svæði fari um sama völlinn. Ég er ekki í vafa um að það að leggja niður flugvöllinn í Reykjavík og flytja allt innanlandsflug til Keflavíkur geti verið stórkostlegt hagsmunamál fyrir alla Íslendinga ef það er gert sem hluti af víðtækari stefnumótun í samgöngumálum. Þó að ég sé sammála málstaðnum þá finnst mér málflutningur andstæðinga flugvallarins oft hálf kómískur. Það var m.a. fyndinn pistill í Fréttablaðinu um daginn þar sem kona nokkur taldi flugvöllinn, rollurnar og kosningarnar í Idol keppninni allt hluta af sama plottinu og dæmi um níðingshátt landsbyggðarskrílsins gagnvart saklausum borgarbúum. Það er skrítið að halda því fram að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni hafi á einhvern hátt valdið Reykvíkingum tjóni, jafnvel óbætanlegum fjárhagslegum skaða. Það er nú þannig að tilviljanir móta oftast líf okkar og umhverfi meira en vel ígrunduð stefnumótun. Það að flugvöllurinn skyldi hafa verið byggður upp í Vatnsmýrinni var að hluta til tilviljun tengd heimstyrjöld sem við höfðum ekkert að segja um. Það er þó augljóst að Reykvíkingar fengu þarna lykilaðstöðu til að byggja upp samgöngumiðstöð fyrir allt landið. Þessi miðstöð varð grunnur að því að þjappa nánast allri opinberri stjórnsýslu og mest öllum opinberum umsvifum saman á einum stað. Landsbyggðarfólk sættist á að sækja þangað alla þjónustu, meðal annars vegna þess að aðgengi í gegnum flugvöllinn var nokkuð gott. Þannig hefur þessi völlur reynst Reykvíkingum ljómandi byggðastyrkur í gegnum tíðina og gerir enn. Það er engum öðrum en Reykvíkingum sjálfum að kenna að borgin skuli hafa verið skipulögð svona dreift. Hafi menn fram að þessum tíma viljað byggja þétt, gátu menn það auðveldlega á öðrum slóðum en akkúrat þarna í mýrinni. Að fjarlægja völlinn er orðinn hluti af nýrri sjálfstæðisbaráttu sumra Borgarbúa (með stóru Béi) sem sjá í flugvellinum síðustu tengingu Borgarinnar við landið. Flugvöllurinn er sveitó, það er fiskifýla af honum. Það liggur kúaskítsslóði undan stígvélum sveitavargsins frá Vatnsmýrinni og inní miðbæ. Hann skal í burtu til að hægt sé að byggja ‘þéttari’, nýtískulegri og menningarlegri borg. Vilji menn menningarlegri borg eru það svo sem alveg jafn góð rök og hvað annað fyrir því að flytja flugvöll. Mér finnst bara að menn eigi að skoða þetta í stærra samhengi og marka skynsamlega stefnu. Ég held semsé að best sé að leggja Reykjavíkurflugvöll niður í heild sinni og flytja allt innanlandsflug til Keflavíkur. En þá er best að gera þetta í einu lagi. Versta lausnin væri að skipta þessu einhvernveginn upp, skilja eftir hálfan völl eða byggja upp annan lítinn flugvöll einhverstaðar í útkanti borgarinnar. Erindi fólks um Reykjavíkurflugvöll er oftast annað af tvennu: ferð til Reykjavíkur eða ferð um flugvöllinn á leið til eða frá Keflavík. Varðandi þá sem koma með flugi til Keflavíkur og eiga erindi útá land væri afar gott að sleppa við þann krók að þurfa að taka rútu inní Reykjavík til að skipta um flugvöll. Flestir munu verða fegnir að losna við að þurfa að krækja inní borgina. Með samræmingu á innanlands- og millilandaflugi verður hægt að stytta ferðatíma og beina umtalsverðum umsvifum framhjá Reykjavík og til ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni. Varðandi þá Íslendinga sem eiga beinlínis erindi til Reykjavíkur þarf flutningur á innanlandsfluginu til Keflavíkur að vera hluti af stærri stefnumótun um samgöngur á landinu öllu. Þrátt fyrir allt miðast í dag talsvert margt í þjónustu opinberra stofnana s.s. háskóla, sjúkrahúsa o.þ.h. við að stuttan tíma taki að komast milli staða. Ég held að aksturstími í kringum 3-4 klukkutíma geri útslagið um það hvort fólk flýgur eða keyrir. Þannig höfum við séð Sauðárkrók og Snæfellsnes detta út sem flug-áfangastaði með bættum vegum. Akureyri er á mörkunum en nær að hanga inni einmitt vegna þess að Reykjavíkurflugvöllur er inni í miðjum bæ og fólk getur því sinnt erindum í borginni en samt komist fram og tilbaka sama dag. Ef við bætum við tveimur klukkutímum á Reykjanesbrautinni mun Akureyrarflugið sennilega snarminnka. Ísafjörður er á mörkunum en með bættum vegasamgöngum má ná aksturstímanum frá Reykjavík og þangað niður í 4 tíma. Og með jarðgöngum og fleiru má ganga að því nokkuð vísu að rennifæri sé ‘í bæinn’ meira og minna allt árið. Eftir mun standa Norðausturhornið, Austfirðir, Suð-Austurland og Vestmannaeyjar. Sjálfsagt er að nota peningana sem sparast frá rekstri og framkvæmdum á Reykjavíkurflugvelli til að byggja upp flugvellina á Ísafirði/Þingeyri, Akureyri, Egilstöðum, Höfn og Vestmannaeyjum með alvöru blindflugsaðstöðu o.þ.h. þannig að framtaksamir einstaklingar geti boðið uppá öruggt farþega- og vöruflug frá Keflavík í nánum tengslum við millilandaflug þaðan, hvenær sem er sólarhringsins. Svo má auðvitað hnykkja á því að almennt virðast menn sammála um að landsbyggðarmenn þurfi ekki endilega að geta lent í miðri borg til að sækja þjónustu til opinberra stofnana ýmiskonar. Þeir geti vel skipulagt tíma sinn betur og lent í Keflavík. Það undirstrikar þá líka þá staðreynd að þessar stofnanir, og ýmsar aðrar sem stofnaðar verða í framtíðinni, geta að sjálfsögðu verið hvar sem er á landinu. Þær þurfa ekkert að vera alveg uppí innanlandsflugvellinum eins og menn hafa haldið fram í áratugi.... . Með kveðju Sigurður Jónsson Kanada (og Ísafirði)



Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×