Skoðun

Jógaleikskóli

Nýjasti leikskólinn í borginni var formlega opnaður í síðustu viku, Reynisholt í Grafarholti. Börnin sungu, viðurkenningar veittar, veitingar og ræður - allt eins og venjulega? Nei, því skólastjórinn lýsti metnaðarfullri skólastefnu sem er enn ein nýjungin í Reykja­vík og lýsir þeirri gróskumiklu flóru sem sjálfstæðir leik- og grunnskólar eru.

Ég er ekki viss um að margir átti sig á því hve skólarnir þróast hratt og fá að njóta sjálfstæðis. Reynisholt mun leggja áherslu á slökun, snertingu og jóga ásamt ræktun dyggða meðal barnanna. Sem jógaiðkandi varð formaður menntaráðs glaður að sjá stefnu­skrána sem byggð er á meistararitgerð skólastjórans, Sigur­laugar Einarsdóttur, og ára­langri reynslu hennar af því að innleiða svipaða hugmyndafræði í leikskólum, nú fær hún tækifæri til að hrinda henni í framkvæmd sjálf ásamt starfsfólki.

"Lífsleikninám" kallast það sem boðið verður uppá. Markvissar snertistundir verða á dagskrá, með áherslu á vináttu, vellíðan, nudd og slökun. Jóga kemur við sögu með hreyfingu, jafnvægisæfingum og teygjum ásamt slökun. Fjölbreyttar mál­tíðir með með sykurneyslu í lágmarki eru meðal fjölmargra annarra atriða. Þessi skóli er ólíkur öðrum, en þar með er ekki sagt að aðrir leikskólar séu ekki með jafn metnaðarfullt starf. Leikskólarnir í borginni hafa byggst upp með miklum hraða á liðnum árum, en svo er líka með innra starf.

Og hvað með ánægju foreldra? Hún er svo mikil samkvæmt könnunum að engin opinber þjónustustofnun eða einkafyrirtæki getur státað af öðru eins! Leikskólarnir í Reykjavík eru í fararbroddi og Reynisholt er enn ein skrautfjöðurinn.

Höfundur er formaður mennta- og fræðsluráðs Reykjavíkurborgar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×