Skoðun

Það hefur verið níðst á öryrkjum

Öryrkjabandalag Íslands hefur enn á ný farið í mál við ríkisstjórnina vegna vanefnda á greiðslum til öryrkja. Fyrir alþingiskosningarnar 2003 gerði Öryrkjabandalagið samkomulag við ríkisstjórnina um 1,5 milljarða kr. hækkun á aldurstengdum bótum til öryrkja.En þegar kom að því að efna samkomulagið vildi ríkisstjórnin ekki greiða meira en 1 milljarð í hækkun á bótum. Öryrkjar gáfu ríkisstjórninni langan frest til þess að efna samkomulagið og vildu fremur fara samkomulagsleið en dómstólaleið. En allt kom fyrir ekki. Nýlega lét heilbrigðisráðuneytið Hagfræðistofnun háskólans gera skýrslu um fjölgun öryrkja á ákveðnu árabili. Var rekið upp mikið ramakvein þegar skýrslan kom út og sagt, að öryrkjum hefði fjölgað gífurlega mikið og kostnaður vegna lífeyrisgreiðslna til þeirra hefði stóraukist. Öryrkjabandalagið segir, að fjöldi öryrkja hér sé svipaður og í nálægum löndum. Vakti það mikla undrun hvers vegna heilbrigðisráðuneytið gat ekki sjálft flett því upp hvað öryrkjum hefði fjölgað mikið hér eða fengið tölurnar frá Tryggingastofnun ríkisins en þær liggja allar fyrir í staðtölum Tryggingastofnunar. Eina skýringin á þessu háttalagi ráðuneytisins er sú, að ætlunin hafi verið að gera mikið áróðursmál úr því að öryrkjum hefði fjölgað mikið og um leið gera það tortryggilegt að æ ­fleiri­­ yrðu öryrkjar. Vantaði ekki að hagfræðistofnun og ráðuneytið réðust með miklu offorsi að stöðu og kjörum öryrkja er skýrslan kom út. Ekki er ljóst hvað þessum aðilum gengur til, þar eð enginn er úrskurðaður öryrki hjá Tryggingastofnun nema að undangengnu örorkumati læknis og fara þau mál öll gegnum tryggingayfirlækni Tryggingastofnunar ríkisins. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram kom í ljós að heilbrigðisráðuneytið hafði fellt niður bensínstyrk til hreyfihamlaðra. Var það helsta sparnaðarráðstöfun ráðuneytisins. Þessi ráðstöfun mæltist mjög illa fyrir innan þings sem utan og varð heilbrigðisráðherra að draga þessa ákvörðun sína til baka. En þessi ráðagerð sýndi afstöðu ráðuneytsins til öryrkja.Þegar mál þetta og mál öryrkja almennt voru rædd á alþingi sagði heilbrigðisráðherra, að öryrkjum hefði fjölgað mikið á árinu. Var ráðherra mikið niðri fyrir og hann sagði með hækkuðum rómi: Öryrkjum hefur fjölgað um 3 á dag undanfarið. Það þýðir ekkert að óskapast yfir fjölgun öryrkja eða sjúklinga.Þetta eru staðreyndir sem verður að horfast í augu við. Nær væri að athuga hver orsökin er fyrir fjölgun öryrkja. Orsökin er m.a. sú, að ríkisstjórnin hefur skapað hér á landi ómanneskjulegt atvinnulíf. Það ríkir svo mikil harka í dag í rekstri fyrirtækja, græðgissjónarmiðin eru svo allsráðandi að ekki er rúm fyrir starfsmenn sem ekki standa sig 100%. Ef eitthvað smávegis er að hjá starfsmanni er hann umsvifalaust rekinn. Og það getur reynst erfitt fyrir slíkan aðila að fá vinnu hjá öðrum atvinnurekanda. Ef hann fær ekki vinnu fer hann á atvinnuleysisskrá og getur brotnað niður. Og það er einmitt það sem gerst hefur í mörgum tilvikum. n



Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×