Skoðun

Er Kristján "fræg stjarna"?

Ég skil ekki aðdáun samlanda minna á Kristjáni Jóhannssyni, hvorki á söngli hans og drambi, né sperringslegu yfirlæti hans sem mér virðist versna með hverju árinu sem líður. Hann sýndi sitt rétta andlit í fjölmiðlum í gær að mínu áliti, fyrst í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 og síðan í Kastjósinu um kvöldið. Ég tek fram að við Kristján þekkjumst ekki persónulega. Þar af leiðandi hafa þeir mannkostir sem kunna að prýða Kristján farið fram hjá mér. Um þetta leyti ár hvert kemur Kristján til landsins á vertíð. Eftir vertíðina slappar hann af á Ítalíu. Eða hvað? Frægð Kristjáns erlendis hefur algerlega farið fram hjá mér. Hér heima er hann e.k. árstíðabundið Icon, sem tekið er fram og tilbeðið þegar nær dregur jólum. Vel má vera að fjarvera Kristjáns og fjarlægð frá Íslandi geri hann að stjörnu, sem birtist árvisst á himni og hverfur svo í vertíðarlok? Ef góðgerðarsamtök þurfa að reiða sig á aðdráttarafl „frægra stjarna“ svo draga megi athygli og velvild landsmanna að góðu málefni er þjóðin komin í siðferðislega sjálfheldu. Ég er fullviss um að fólk myndi flykkjast á tónleika til styrktar langveikum börnum, án tillits til hver træði upp. Þessi djarfa tilgáta mín gerir ráð fyrir að fólk hafi meiri áhuga á að styrkja gott málefni en að hlusta á „frægar stjörnur“ syngja. Gunnar Örn Hannesson



Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×